Aðventa fer í hönd á Snæfellsnesi

Aðventuhandbók Snæfellsness er dreift á öll heimili á Snæfellsnesi.

Svæðisgarðurinn Snæfellsnes vill með útgáfu þessarar aðventuhandbókar hvetja til þess að Snæfellingar njóti þess sem í boði er á Snæfellsnesi og að jólagjafir séu keyptar í heimabyggð. Mikið er í boði þegar leitað er eftir, bæði vörur og þjónusta. Hér hefur öllum Snæfellingum verið boðið að kynna sína þjónustu og afraksturinn er borinn á hvert heimili.

Líkt og árið 2020 þá er árið 2021 ár aðlögunar og þrautseigju – samfélagið hefur þurft að finna nýjar leiðir fyrir fólk til að vera saman, til að tengjast og til að taka þátt.  Á Snæfellsnesi  búum við svo vel að hér er hátt þjónustustig og hér ríkir samhugur meðal fólks og því er um að gera að leita til nærumhverfisins í öllu sem tengist jólahátíðinni; þjónustu, verslun og viðburðum.

Jólahátíðin er fyrir okkur flestum tími samveru og upplyftingar. Styðjum við fyrirtæki og þjónustuaðila á Snæfellsnesi og kaupum gjafir, mat og aðrar veitingar, jólaskraut og upplifun í heimabyggð.Allir viðburðir yfir hátíðirnar, rafrænir og staðbundnir, verða birtir á vefnum: adventa.snaefellsnes.is. Rafræna útgáfan verður uppfærð reglulega.

Hér heima á Snæfellsnesi verður desember vonandi fullur af ljósum og samveru: Við erum hvött til að njóta aðventunnar heima og það verður margt í boði.

Gefum tíma, sem við erum flest sammála um að sé eitt það mikilvægasta sem við eigum. Búum til góðar minningar. Hvetjum hvert annað til útivistar og að njóta þeirra menningarviðburða sem óhætt verður að boða til miðað við gildandi smitvarnir í heimsfaraldri.

Smelltu hér til að skoða!