Dagsbirtan er stutt á aðventunni og til að nýta hana sem best er tilvalið að nota dagana í útivist og fá smá hreyfingu ásamt því að skoða og njóta fallegrar náttúru í leiðinni.

Innan þjóðgarðsins Snæfellsjökuls eru nokkrar fjölskylduvænar gönguleiðir. Leiðir sem eru ekki of krefjandi og getað hentað fyrir alla fjölskylduna, einnig er hægt að leita í leiðinni að ýmsum kynjaverum. Hver veit nema Grýla og Leppalúði leynist einhversstaðar í hrauninu!

Hér eru upplýsingar um nokkrar gönguleiðir:

Saxhóll er 40 metra hár gígur en tröppustígur liggur upp á Saxhól. Gott útsýni er upp á Saxhóli ásamt því að þar er sjónskífa.

Rauðhóll er formfagur gjallgígur sem myndaðist við eldgos fyrir um 5-8000 árum. Stikuð hringleið liggur um Rauðhól og er leiðin um 2,3 km og tekur um 45 mínútur – 1 klst að ganga þá leið. Leiðin er merkt nr. 10 í gönguleiðabæklingi þjóðgarðsins. Hafa ber þó í huga að ef snjór er mikil getur vegurinn upp í Eysteinsdal og að Rauðhól orðið ófær.

Djúpalónssandur er alltaf vinsæll. Hægt er að skoða steinatökin  sem vermennirnir reyndu afl sitt á. Gönguleið er frá Djúpalónssandi yfir í Dritvík en það er um 1 km önnur leiðin og tekur um 40 mínútur fram og tilbaka. Fara þarf varlega á köflum þar sem gengið er um hraungrýti. Leiðin er merkt nr. 22 í gönguleiðabæklingi þjóðgarðsins.

Á Malarrifi er Gestastofa þjóðgarðsins staðsett. Salerni eru opin allan sólarhringinn. Leiktæki og þrautabraut fyrir alla fjölskylduna og góð nestisaðstaða.  Frá Gestastofunni  er hægt að ganga í Salthúsið og skoða þar sýningu sem krakkarnir í Lýsuhólsskóla gerðu. Einnig er hægt að ganga að Lóndröngum sem er um 1 km frá Malarrifi eða fara alla leið að Svalþúfu. Gönguleiðin er númer 25 í gönguleiðabæklingnum.

Svalþúfa er þekkt fyrir að þar sátu að sögn þeir kölski og Kolbeinn Jöklaskáld fyrrum og kváðust á. Hægt er að ganga upp á Svalþúfu og fram á Þúfubjarg, gott útsýni er þaðan að Lóndröngum. Einnig er hægt að ganga að Lóndröngum og alveg að Malarrifi ef kosið er frekar að fara í þá átt. Gönguleiðin er merkt númer 25 í gönguleiðabæklingnum.

Upplýsingar um fleiri gönguleiðir er að finna í gönguleiðabæklingi okkar bæði styttri og lengri gönguleiðir.

Göngukort þjóðgarðsins

Munið að vera klædd eftir veðri, fara varlega og njóta góðrar útiveru.

Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull:  https://ust.is/nattura/natturuverndarsvaedi/thjodgardurinn-snaefellsjokull/